Kjölfesta og Edda fjárfesta í Íslandshótelum.
Kjölfesta og framtakssjóðurinn EDDA, hafa keypt 15% hlut í Íslandshótelum hf.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Íslandshótel hf. er ein stærsta hótel-keðja landsins en félagið á og rekur 15 hótel um land allt. Má þar nefna Grand Hótel Reykjavík, 311 herbergja fjögurra stjörnu ráðstefnuhótel, Hótel Reykjavík Centrum, 89 herbergja fjögurra stjörnu hótel í miðbæ Reykjavíkur, Best Western Hótel Reykjavík ásamt Fosshótelunum sem munu telja 12 með opnun Fosshótel Reykjavík við Höfðatorg. Félagið hefur þá sérstöðu að eiga flestar þær fasteignir þar sem það er með hótel rekstur. Í sumar munu Íslandshótel bjóða upp á rúmlega 1.400 herbergi, en hjá félaginu starfa þegar mest lætur um 800 manns.
Rekstur Íslandshótela hefur gengið vel á undanförnum árum og hefur fyrirtækið átt stóran þátt í fjölgun gistirýma á Íslandi, bæði á landsbyggðinni sem og í Reykjavík. Í júní á þessu ári opnar Fosshótel Reykjavík, fjögurra stjörnu hótel sem jafnframt verður það stærsta á landinu með 320 herbergi. Á síðasta ári opnaði Fosshótel Austfirðir á Fáskrúðsfirði í gamla franska spítalanum auk þess sem byggt var við Fosshótel Vatnajökul og herbergjum fjölgað um 40. Framkvæmdir hófust við Fosshótel Húsavík á síðasta ári en að þeim loknum mun hótelið bjóða upp á 114 herbergi ásamt ráðstefnu- og fundarsölum. Framkvæmdir eru einnig hafnar á Hnappavöllum við Öræfajökul en þar mun rísa nýtt þriggja stjörnu 104 herbergja hótel, Fosshótel Jökulsárlón. Fyrirtækið vill þannig svara kalli ferðamanna um aukið framboð gistirýma á Suðurlandi.
Aðrir eigendur Íslandshótela eru Ólafur D. Torfason, sem einnig situr í stjórn félagsins, og fjölskylda.
„Þessi viðskipti munu styðja vel við þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á komandi árum hjá Íslandshótelum þar sem áhersla er lögð á aukin gæði um allt land.”
Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela hf.